Fjármálavit

 Evrópska Peningavikan

Dagana  27. mars – 2. apríl verður fjármálalæsi ungs fólk í eldlínunni á alþjóðavísu þar sem vakin er athygli á þessu góða málefni af ýmsum aðilum og hreyfingum um allan heim.

Evrópsku bankasamtökin, sem SFF eiga aðild að, standa fyrir Evrópsku peningavikunni og eru með henni að  hvetja bankasamtök í Evrópu til að láta gott af sér leiða í þessum efnum. Eins og fyrri ár snýst þátttaka SFF um að vekja athygli almennings á Fjármálaviti og vekja unglinga til umhugsunar um fjármál og fyrirhyggju. Fjármálavit er ungmennafræðsluverkefni SFF og nú hafa á annað hundrað starfsmenn aðildarfélaganna tekið þátt við að kynna í öllum grunnskólum landsins og leiðbeint nemendum í 10. bekk við að  leysa verkefni tengd fjármálalæsi. Nýlega gekk Landsamband lífeyrissjóða til liðs við verkefnið og er það mikill styrkur.

Það helsta í Evrópsku peningavikunni:

  • Hringt inn – Vikan byrjar með látum í Kauphöllinni kl. 9 mánudaginn 27. mars þegar Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hringir vikuna inn og opnar markaðinn ásamt nemendum í Háteigsskóla.
  • Ráðstefna – Samtök fjármálafyrirtækja og Stofnun um fjármálalæsi standa fyrir ráðstefnu um fjármálalæsi ungs fólks miðvikudaginn 29. mars milli kl. 8.30 – 10.30 í Háskólabíói. Á ráðstefnunni munu kennarar og stofnanir sem vinna að eflingu fjármálafræðslu ungmenna leiða saman hesta sína og fjalla um stöðu mála. Nánar um dagskrána og skráning.
  • Skólaheimsóknir Kynningar á námsefni Fjármálavits í grunnskólum landsins halda áfram og í tilefni þess að heimsókn í Áslandsskóla  þriðjudaginn 28. mars verður númer 100 í vetur, munu Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson, höfundar og leikarar verksins Unglingurinn slást í för með leiðbeinendum Fjármálavits og slá á létta strengi. Strákarnir hafa unnið nokkur myndbönd fyrir Fjármálavit sem verður dreift á samfélagsmiðlum og er heimsóknin í Áslandsskóla hluti af því verkefni.
  • Keppni í fjármálalæsi – undir lok vikunnar fer af stað spurningkeppni milli 10. bekkja í grunnskólum í gagnvirkum netleik sem reynir á þekkingu, úrræðasemi og ráðdeild unglinga í fjármálum. Leikurinn stendur yfir fram að Páskafríi og fær skólinn sem stendur sig best 100.000 kr. í peningaverðlaun.
  • Bókargjöf til kennara – Fjármálavit mun færa öllum grunnskólum landsins eintak af bókinni Lífið er rétt að byrjaeftir Gunnar Baldvinsson að gjöf. Bókin er um grunnatriði í fjármálum einstaklinga og skrifuð fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í fjármálum. Fjármálavit hefur látið gera kennsluefni upp úr bókinni fyrir grunnskóla til að auðvelda kennurum notkun hennar.
  • KrakkaRÚV  – á meðan á vikunni stendur sýnir Krakkarúv Tíkallinn sem eru tíu stutt myndbönd um fjármál sem snúast um að auka fjármálalæsi barna á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Tíkallinn er jafnframt aðgengilegur á RUV.is

Um Fjármálavit

Um FjármálavitFjármálavit er námsefni fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla, þróað af Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) í samvinnu við kennara og kennaranema. Tilgangurinn er að veita innblástur í kennslu um fjármál. Námsefnið er byggt upp sem sjálfstæðar kennslustundir með umræðum og verkefnum og til stuðnings eru stutt myndbönd sem nemendur geta horft á til að tengja við viðfangsefnið. Námsefnið  er að finna hér á undirsíðunni námsefni.

Í byrjun vetrar fá allir 10. bekkir í grunnskólum landsins boð um heimsókn Fjármálavits þar sem nemendur leysa verkefni og spjalla um fjármál. Heimsóknir eru skólum að kostnaðarlausu og eru  í boði allan veturinn.  Skólar geta óskað eftir heimsókn Fjármálavits með því að senda póst á fjarmalavit@fjarmalavit.is.

 

Markmið Fjármálavits

  • Að nýta samtakamátt fjármálafyrirtækja á Íslandi og minna á samfélagslegt hlutverk þeirra í að stuðla að góðu fjármálalæsi.
  • Veita kennurum innblástur í kennslu um fjármál með  kennsluefni.
  • Eiga þátt í að auka fjármálalæsi ungs fólks og gera það betur í stakk búið til að taka ákvarðanir í framtíðinni um fjármál.
  • Gera starfsfólki fjármálafyrirtækja kleift að vinna saman að verkefni sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið.