Fjármálavit

Fjármálavit er námsefni fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla, þróað af Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) í samvinnu við kennara og kennaranema. Tilgangurinn er að veita innblástur í kennslu um fjármál. Námsefnið er mikið til byggt á umræðum og verkefnum og til stuðnings eru stutt myndbönd sem nemendur geta horft á til að tengja við viðfangsefnið. Nýlega bættist við námsefnið bókin „Lífið er rétt að byrja“ eftir Gunnar Baldvinsson sem kennarar geta fengið frá Fjármálaviti óski þeir þess. Námsefnið og upplýsingar um það er að finna hér á undirsíðunni námsefni.

Skólar geta haft samband með því að senda póst á fjarmalavit@fjarmalavit.is.

Í byrjun vetrar fá allir 10. bekkir í grunnskólum landsins boð um heimsókn Fjármálavits þar sem nemendur leysa verkefni og spjalla um fjármál. Heimsóknir eru skólum að kostnaðarlausu og eru  í boði allan veturinn.

Fjármálavit hélt upp á viku fjármálalæsis 27. mars – 2. apríl

Í alþjóðlegri fjármálalæsisviku sem haldin er hátíðleg á alþjóðavísu í mars ár hvert hvetja bankasamtökin í Evrópu aðildarsamtök sín til að láta gott af sér leiða í þessum efnum. Samtök fjármálafyrirtækja hér á landi (SFF), sem hafa staðið að Fjármálaviti, eru aðilar að Evrópsku bankasamtökunum og nýta þessa viku í að vekja athygli almennings á Fjármálaviti og mikilvægi þess að kenna ungu fólki á eigin fjármál og að sýna fyrirhyggju. Nú hafa á annað hundrað starfsmenn aðildarfélaga SFF tekið þátt í að kynna Fjármálavit í öllum grunnskólum landsins og leiðbeint nemendum í 10. bekk við að  leysa verkefni tengd fjármálalæsi.

Nýlega gengu Landssamtök lífeyrissjóða til liðs við Fjármálavit og er það mikill styrkur fyrir verkefnið sem mun gefa því aukinn slagkraft, en lífeyrismálin eru stór partur af fjármálum einstaklinga. Skrifað var undir samtarfssamning í viku fjármálalæsis.

Markmið Fjármálavits

  • Að nýta samtakamátt fjármálafyrirtækja á Íslandi og minna á samfélagslegt hlutverk þeirra í að stuðla að góðu fjármálalæsi.
  • Veita kennurum innblástur í kennslu um fjármál með  kennsluefni.
  • Eiga þátt í að auka fjármálalæsi ungs fólks og gera það betur í stakk búið til að taka ákvarðanir í framtíðinni um fjármál.
  • Gera starfsfólki fjármálafyrirtækja kleift að vinna saman að verkefni sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið.