Evrópukeppni í fjármálalæsi 2020

Evrópukeppni í fjármálalæsi milli grunnskóla í Evrópu fer fram 27 – 28 apríl 2020 í Brussel, Belgíu.

Forkeppnir eru haldnar í hverju þátttökulandi og á Íslandi fer hún fram dagana 4 – 13 mars 2020 milli nemenda í 10. bekk. Hver og einn nemandi sem ákveður að taka þátt skráir sig til leiks á vefslóðinni Fjarmalaleikar.is. og gefur upp nafn og í hvaða skóla hann er og þar með er viðkomandi skóli orðinn þátttakandi í leiknum. Hver þátttakandi þarf að eiga Facebookreikning eða hafa aðgang að einum. Ekki er gerð krafa um að allir nemendur í árgangi taki þátt til að viðkomandi skóli geti verið með, en lágmarksfjöldi þátttakenda úr hverjum skóla er tíu talsins.
Í fámennum skólum geta fleiri en einn árgangur spilað til að fylla upp í þá tölu.

Hér er það hópeflið sem gildir.

Grunnskólar fá sent boð um þátttöku með nánari upplýsingum þegar nær dregur. 

Upplýsingabæklingur

Fulltrúar íslenskra grunnskóla í fyrra úr Nesskóla 

Í fyrra var það tíundi bekkur Nesskóla í Neskaupstað sem fór með sigur af hólmi. Í öðru og þriðja sæti voru Varmahlíðarskóli í Skagafirði og Árbæjarskóli í Reykjavík. 

Þau Ester Rún Jónsdóttir og Freysteinn Bjarnason fóru til Brussel í fyrra fyrir hönd Nesskóla ásamt Sigrúnu Júlíu Geirsdóttur kennara þeirra. Sigrún  segir árangurinn hafi náðst með mikilli samheldni og hvatningu, en hver þátttakandi svaraði 64 fjölbreyttum spurningum í netleik sem hannaður var sérstaklega með þekkingarramma PISA í huga. „Þau voru tilbúin að einhenda sér í verkefnið og vanda sig frekar en flýta sér. Það skipti máli að ýta ekki strax á hinn augljósa svarmöguleika heldur gefa sér tíma til að hugsa. Stundum þurfti að reikna, í öðrum að vita um hvað tryggingar snúast, þekkja réttindi og skyldur á vinnumarkaði, átta sig á lífeyrissparnaði eða kunna ýmislegt um t.d.gengissveiflur og verðlagsþróun,“ segir Sigrún, jafnframt.

Að sögn Kristínar Lúðvíksdóttur verkefnisstjóra Fjármálavits er markmiðið með svona keppni fyrst og fremt að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis hjá ungu fólki og hvetja kennara og skólastjórnendur áfram í kennslu í fjármálalæsi. „“Fjármálalæsi er víða kennt í grunnskólum landins, þó mismikið milli skóla og því mætti gera enn betur í því að festa fjármálæsi betur í aðalnámskrá grunnskóla“ segir Kristín. „Krakkar í dag eru farnir að vinna snemma og þurfa að þekkja grunnatriðin í eigin fjármálum, það er nokkuð ljóst. Þetta snýst ekki bara um að vera góður í að reikna vexti heldur þarf að beita skynsamri hugsun með“.

Kahootspurningarnar úr úrslitakeppnum í Brussel 2018 og 2019.

Um Evrópukeppnina í fjármálalæsi

Evrópsku bankasamtökin standa að árlegri Evrópukeppninni í fjármálalæsi sem um þrjátíu Evrópulönd taka þátt í.  Sá skóli sem er hlutskarpastur í forkeppni hvers þátttökulands sendir tvo nemendur ásamt kennara í lokakeppnina í Brussel. Keppt er um hvaða evrópski skóli hreppir Evróputitilinn í fjármálalæsi.

Fjármálavit stendur að keppninni fyrir hönd íslenskra nemenda en Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða hafa staðið að baki Fjármálavits undanfarin ár.