Með þeim bestu í Evrópu í fjármálalæsi

Í maí á síðasta ári tóku Ari Kaprasíus Kristjánsson og Telma Jeanne Bonthonneau þátt í Evrópukeppni í fjármálalæsi sem haldin var í Brussel í Belgíu. Þau voru fulltrúar Austurbæjarskóla sem sigraði undankeppnina hér heima. Um 500 nemendur í 10. bekk í 24 skólum hér á landi tóku þátt en alls tóku yfir 40.000 nemendur í 25 löndum Evrópu þátt í undankeppnum. Framan af leidii íslenska liðið keppnina og endaði að lokum í 6. sæti. Öll löndin fengu sömu spurningar sem búið var að þýða á viðeigandi tungumál. Keppnisandinn var mikill og var hlutverk kennara þátttökuskólanna stór partur í því að hvetja nemendur sína til dáða, en með í för var Sigrún Lilja Jónasdóttir stæðrfræðikennari í Austurbæjarskóla.

Ari og Telma voru fulltrúar Austurbæjarskóla í Brussel

Röð efstu skóla í Íslandskeppninni:

  1. Austurbæjarskóli
  2. Háteigsskóli
  3. Varmahlíðarskóli
  4. Vogaskóli
  5. Síðuskóli
  6. Árbæjarskóli, en nemendur fengu  viðurkenningu fyrir góða þátttöku og frábæra liðsheild.

Í undankeppninni hér heima var spilaður spurningaleikur sem tekur mið af þekkingarramma OECD í fjármálalæsi og var upphaflega þróaður og hannaður í samvinnu við Ómar Örn Magnússon kennara í Hagaskóla. Keppnin var afar spennandi og ekki ljóst fyrr en í blálokin hvaða skólar yrðu í efstu sætunum.

Evrópukeppnin verður endurtekin með undankeppni á Íslandi 11 – 22 mars 2019 og verður Evrópukeppnin sjálf í Brussel í Belgíu 7. maí 2019.  Öllum grunnskólum landsins mun gefast kostur á að taka þátt í undankeppninni um hvaða skóli sendir fulltrúa til Belgíu í úrsllitakeppnina um Evrópumeistaratitilinn. 

Íslandsmeistararnir í Austurbæjarskóla