„Hér voru allir ánægðir“

Skólaheimsóknir Fjármálavits á liðnu skólaári gengu vonum framar en þær náðu til yfir 85% nemenda í 10. bekk á landinu öllu. Nú stendur yfir undirbúningur fyrir skólaheimsóknir næsta skólaárs og er að ýmsu að hyggja í þeim efnum. En hvernig gekk á liðnu skólaári og hvernig móttökur fékk Fjármálavit frá nemendum og kennurum?

„Í heimsóknum okkar í vetur höfum við fengið mikinn meðbyr frá bæði kennurum og nemendum og orðið vör við töluverðan áhuga hjá krökkunum á að fræðast um fjármál. Þau í raun kalla eftir fjármálafræðslu, segir Kristín Lúðvíksdóttir verkefnastjóri Fjármálavits. Í fræðslunni leggjum við m.a. áherslu á að krakkarnir setji sér markmið, eigi fyrir því sem þau vilja kaupa, að gott sé að byrja að spara og skipuleggja fjármálin snemma. Ég tel að krakkar séu meðvitaðri í dag en áður hefur tíðkast sem kemur kannski til vegna meiri freistinga og aukins samfélagslegs þrýstings. Í dag þarf helst að eiga nýjasta símann, skóna eða úlpuna.

Krakkarnir eru duglegir að spyrja spurninga og eru almennt mjög áhugasamir. Það sem kemur þeim mest á óvart er hvað hver og einn kostar mikið þegar upp er staðið og hvað það litla sem þeir eyða í hverri viku verður mikið þegar það er skoðað til lengri tíma. Almennt heyrum við frá nemendum að þeim finnist gaman að fá að vinna verkefni og pæla aðeins í hlutunum sjálf í stað þess að hlusta bara á fyrirlestur.

Hvað kennara varðar þá voru þeir almennt mjög ánægðir, töldu námsefnið þarft og gagnast nemendum vel. Margir nefndu það að fjármálafræðsla ætti að eiga fastari sess í námsskrá.“

Á komandi skólaári munum við bjóða skólunum upp á fjölbreyttara námsefni og hlökkum við mikið til.