Evrópukeppni í fjármálalæsi

Evrópukeppni í fjármálalæsi milli skóla

Í mars verður haldin Evrópumeistarakeppni í fjármálalæsi meðal nemenda á unglingastigi í yfir 30 löndum Evrópu. Nemendur í 10. bekk hér á landi fá tækifæri til að taka þátt í keppninni, en undankeppnir verða haldnar í hverju landi þar sem einn skóli stendur uppi sem sigurvegari. Tveir nemendur í hverjum þeirra skóla sem vinna undankeppnir heima fyrir, fara til Brussel í Belgíu og munu taka þátt í lokakeppninni 8. maí næstkomandi og keppa um hvaða skóli í Evrópu hlýtur evrópumeistaratitilinn í fjármálalæsi 2018.

Fjármálaleikar á Íslandi – undakeppnin

Á Íslandi verður keppni milli skóla haldin dagana 12 – 18 mars í hinni árlegu fjármálalæsisviku sem haldin er hátíðleg víða um heim. Nemendur spila spurningaleik sem tekur mið af þekkingarramma OECD í fjármálalæsi og var upphaflega þróaður og hannaður í samvinnu við Ómar Örn Magnússon kennara í Hagaskóla sem hefur mikla reynslu af því að semja kennsluefni um fjármál fyrir unglinga.

Leikurinn byggir á því að svara spurningum í fjórum efnissviðum:  Ég, Heimilið, Nám og atvinna og Samfélagið.  Sem stendur er verið að uppfæra spurningar leiksins og undirbúa hann fyrir keppni í mars. Frekari upplýsingar um fyrirkomulag leiksins koma innan tíðar.

Evrópska peningavikan

Evrópsku bankasamtökin hafa ásamt aðildarfélögunum lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að efla fjármálafræðslu ungmenna og standa fyrir hinni Evrópsku peningaviku sem er haldin í mars ár hvert (12 – 18 mars). Samtök fjármálafyrirtækja á Íslandi deila þessari áherslu en flaggskip samtakanna þegar kemur að fjármálafræðslu ungmenna er verkefnið Fjármálavit sem unnið er í samvinnu við Landssamtök lífeyrissjóða. Fjármálavit er námsefni fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla og er tilgangurinn að veita kennurum innblástur í kennslu um fjármál og stuðla að auknu vægi fjármálalæsi í námskrá grunnskóla. Námsefnið byggir á ákveðnum verkefnum og bókinni  „Fyrstu skref í fjármálum“ eftir Gunnar Baldvinsson. Námsefnið er kynnt fyrir kennurum og nemendum þeirra, en starfsmenn fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða um land allt heimsækja grunnskólana og vinna verkefni Fjármálavits með krökkunum ásamt kennurum.